Lyse øyeblikk

Leyfið börnunum

Ég fór í messu í morgunn, sem er ekki í frásögum færandi nema fyrir það að þetta var óhefðbundin helgistund í meira lagi. Full of hot air. Bókstaflega í formi blaðra og sápukúlna. þetta var endapunkturinn á
krílasálmanámskeið
sem Guðný og Diljá hafa staðið fyrir undanfarnar vikur. Guðþjónustan öll var sniðin að þörfum kornabarna. Látið börnin koma til mín … osfrv.
Ég er viss um að fullorðnu kirkjugestirnir hafi fyllst þakklæti, lotningu og gleði ekki síður en í venjulegri messu. Blöðrur og sápukúlur eru góðar fyrir sálina óháð aldri. Og í brosi brjóstmylkings skynjar maður nærveru skaparans.
Þessi námskeið eru vonandi komin til að vera, sem sóknarnefndarformaður ætla ég allavega að leggja mitt á vogarskálina til að svo megi verða.
Á námskeiðunum eru börnin og foreldrarnir leitt saman inn í heim tónlistar, hreyfingar, skynjunnar. Rólega og notalega í þeirri kyrrð og andakt sem fylgir kirkjuskipinu fá börnin að hlusta á hljóðfæri og hreyfa sig í takt við rödd pabba og mömmu. Yfir öllu hvílir kyrrð og ró. Þetta er með gáfulegri tilboðum til foreldra ungra barna sem ég hef kynnst lengi.

Ég gef ekki endilega mikið fyrir þá barnamenningu sem er í boði kringum okkur. Margt er gott og vandað að vísu, en margt finnst mér varla við hæfi barna. Mér finnst svo mikið lagt upp úr hamagangi og látum, hraða og gargi. Persónurnar í barnamyndunum kallast á. ERUÐ ÞIÐ EKKI Í STUÐI KRAKKAR!!!!!?????
Komum og görgum, stöppum, skjótum.
Það er allt svo upptrekt og virðist ganga út á að kremja út úr úttauguðum börnunum a laugh a minute.

Er það þetta sem börn þurfa á að halda í dag? Ég held ekki.
Kyrrð.
Ró.
Að fá að sitja kyrr í handarkrika pabba og skoða myndir í bók.
Að láta mömmu breiða yfir sig og raula fyrir sig á kvöldin.
Að upplifa þögn. Að einbeita sér að einu lagi í einu.
Kirkjan er góður staður til þess.

Comments are closed.

Discover more from Lyse øyeblikk

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading