Lyse øyeblikk

12 ár í sópran

Úr tíkallasíma í sjoppunni við Lönguhlíð hringdi ég í Hörð og bauð mig fram í Mótettukórinn. Þá var 1983.

Ég var nýflutt til Íslands, ungbarnamóðir í námi og var að leita að tómstundastarfi sem ekki væri of tímafrekt, ekki of dýrt og gæfi kost á að kynnast og vinna með skemmtilegu fólki. Ég vissi af reynslu að í góðum kór fær maður míkið fyrir peningana og mér leist vel á það sem ég hafði heyrt um þennan nýja kór og organista í Hallgrímskirkju.

Stuttu síðar var ég komin upp í kirkju í prufusöng. Hörður tók mér fagnandi. Á milli þess sem ég söng, lýsti hann fyrir mér framtíðarsýn sinni um kórinn og tónlistarlífið í kirkjunni. Það tók mig fimm mínútur að átta mig á að hér færi maður með háleit markmið og raunhæfar hugmyndir um hvernig mætti ná þeim, mikinn sannfæringarkraft og hæfileika til að hrífa aðra með sér. Hálftíma síðar var ég orðin félagi í kórnum.

Hefði ég vitað hvað ég ætti í vændum! Strandpartý í Nice, plötuupptöku á söngloftinu í Kristskirkju þar sem brakaði svo í gólfinu að maður varð að anda með eyrunum, vígsla Hallgrímskirkju með pompi og prakt, Plánetur í anddyri Háskólabíós með hljómsveitinni inni í sal og tveir stjórnendur – annar á sjónvarpsskjá, átakafundir í kórbúninganefnd, yndislegir páskamorgnar sem öll fjölskyldan fékk að njóta, sungið fyrir Páfa á Þingvöllum með stórar slaufur í barminum, sameiginlegar badmintonæfingar, flutningur á Mozart Requiem í nývígðri Hallgrímskirkju þegar loftið var áþreifanlega rafmagnað af eftirvæntingu, laugardagsmorgnar með skrýtnum tilbrigðum við morgunleikfimi og Kaffe Fassett á prjónunum, Lýðveldishátíðin í Bonn, að hvetja fararstjóra í kapphlaupi við járnbrautalest, “passið þið nóturnar!”, “gott jarðsamband!” og “þriðja röðin fyrst inn!”.

Og tónlistin – að kynnast allri þessari tónlist innanfrá og fá að flytja hana fyrir þakkláta hlustendur í mörgum löndum, við ólíkustu og stundum ólíklegustu aðstæður.

Fyrstu tónleikar sem ég tók þátt í voru haldnir í Kristskirkju, Hallgrímskirkja var í byggingu. Flutt var einföld a capella dagsskrá. Í þá daga saumuðu konur kórbúningana sína sjálfar, með innfeldri blúndu eins og á gamaldags koddaveri og við biðum spennt eftir að sjá hvort einhver kæmi til að hlusta á okkur.

Siðustu tónleikar mínir voru haldnir í fullsetinni Hallgrímskirkju 12 árum síðar. Uppselt var á tvenna tónleika í röð á Sálumessu Mozarts með hljómsveit, einsöngvurum og dönsurum.

Ég fékk að fylgjast með kórnum vaxa og dafna og hasla sér völl í tónlistarlífi Íslendinga og sjá bæði kór og stjórnanda þroskast og vaxa við hverja raun.
Hörður er skipulegur stjórnandi og vinnur sína heimavinnu vel. Hann er metnaðarfullur og vandar til allra hluta, ekkert smáatriði er “overlatt til tilfeldighetene”. Hann sníðir sér stakk eftir vexti, en passar alltaf upp á að víkka stakkinn um leið og hann passar í hann til að hefta ekki vöxt. Ég hef ekki forsendur til að leggja mat á listræn afrek Harðar og hæfileika, en eitt er víst að hann hefur ávaxtað sitt pund afskaplega vel og það er væntanlega það sem spurt er um þegar upp er staðið.

Hver á svona kór? Stjórnandinn? Kirkjan? Félagarnir fyrr og nú? Áheyrendur? Sennilega á hann sig sjálfur og er eingöngu til sem samvinna og samhugur allra þessara aðila á hverjum tíma.
Að fá að vinna með fólki sem manni þykir vænt um að sameiginlegu markmiði og standa svo hlið við hlið á tónleikum og finna verkið öðlast sjálfstætt líf og vekja gleði í okkur öllum er ekki hversdagslegur atburður. Við erum öll blessuð sem höfum fengið að eiga aðild að því kraftaverki sem slíkur kór er.

(Skrifað í afmælisrit Mótettukórsins 2003)

Comments are closed.

Discover more from Lyse øyeblikk

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading