Steve Gym

María bauð mér að kíkja á sig á æfingu. Ég af stað. Einhvernveginn hafði ég bitið í mig að þetta væri á Grettisgötu 30ogeitthvað. Ég þangað. Ekkert nema íbúðarhús. Biddu, þetta getur ekki verið rétt?! Upp með blaðið –  neinei –  Grettisgata 80ogeitthvað. Ég þangað. What?? Hér?? Upp með blaðið aftur. “Bak við” hafði hún skrifað. Ég þangað. Þar stendur María í dyrunum og er búin að æfa en tekur vel á móti mér. Ég inn. This is it?? Eitt lítið herbergi og ljósaperan farin? Hvar er tölvustýrða loftræstikerfið og gufubaðið með vanillubragði?  Hvar er búningsklefinn? Er klósett hérna? Flott aðstaða til að dedda þó .. og alvöru lóð … og alvöru karlar .. og alvöru kona … alvöru andi svífur greinilega yfir vötnum. Ekki slæmt.

María gefur sér tíma og segir mér sína sögu, smá part af sögunni að minnsta kosti. Geggjað. Hún segir mér frá græjum, bekkpressubolum, brókum, skóm, skósmiðum og hvernig hún vafði sig með teipi til að komast í brókina. Geggjað. Ég er ein eyru. Hún sannfærir mig um að ég ætti að skrá mig á íslandsmótið. Langskemmtilegasta mótið. Auðvelt fyrir hana að segja, hún hefur gert þetta áður. Well, maybe… Það væri nú gaman að prófa. Ef einhver hefði sagt við mig fyrir stuttu að ég ætti eftir að vera á leið á íslandsmót í kraflyftingum hefði ég kallað á sjúkrabíl. Beint á bráðamóttöku geðdeildar með hann!
María segir mér líka frá sínum fyrirmyndum meðal lyftingarkvenna, kannski ég kíki á þær á netinu. Og svo er heimsmeistaramót 2006 í Noregi. Við þangað! Sem áhorfendur – allavega ég. Hver veit hvað hún tekur upp á?

Þá hef ég skoðað Steve Gym. Ég hef á tilfinningunni að ég eigi eftir að koma hingað aftur. Þó ekki væri nema til að skoða þennan Steve. Heitir hann Steve?? I wonder …

%d bloggers like this: