Psycho/Keiko

Það vantar í þig geðveikisgenið sagði einu sinni við mig reyndur kraftlyftari.
Ég er ekki frá því að hann hafði eitthvað til síns máls. Ég er í of góðu andlegu jafnvægi. Ég þarf að hafa fyrir því að magna upp reiði og brjálæði og framleiða nauðsynlegt adrenalín í þungum lyftum. Håkon Magnus er heppinn sem hefur Mette Marit til að gera sig “adrenalinsint”.

Mér tekst það stundum, og þá með því að kalla fram í hugann eitthvað sem virkilega “pisses me off”. Það eru yfirleitt hlutir úr samfélaginu og umræðunni í kringum mig sem ganga  fram af mér. En það er ekki alltaf sem mér tekst að finna eitthvað nægilega bitastætt. Það vantar í mig geðveikisgenið 🙁

Þegar ég var að byrja í lyftingum, svona upp úr 2000 voru það aðallega tveir aðilar sem gengu fram af mér og ég gat notað til að lyfta útá.
Þeir voru báðir vestmannaeyingar einhverra hluta vegna.
Hér var um að ræða þeir félagar Keikó og Árni Johnsen!

Keiko, s.s. fiskurinn sjálfur, var auðvitað saklaus og átti ekki nema gott eitt skilið. Það sem fór  svona hrikalega fyrir brjóstið á mér var þessi “free willy” vitleysa sem lét bandarísk börn gefa vasapeningana sína, og vestmannaeyjinga stækka flugvöllinn sinn til þess að þessi fiskur gæti komið heim og hitt ömmur sínar og frændsyskini við íslandsstrendur. Þegar hann kom hingað með sína einkaþjálfara og næringafræðinga og fréttafulltrúa var mér öllu lokið. Ég trúði ekki mínum eigin augum! Sök sér að bandaríkjamenn skyldu standa í svona dellu, en að veiðiglaðir eyjamenn skyldu taka þátt í þessari uppákomu fannst mér óskiljanlegt. Sjálf er ég komin af hvalveiðimönnum í föðurætt, afi drap hvali við suðurskautslandið Ég hefði viljað sjá Keiko breyttan í kjötbollum handa sveltandi börnum.

Ef ég var að fara undir stöng í þunga lyftu og Jónsa fannst ég vera eitthvað sloj, nægði fyrir hann að segja hátt og ákveðið “KEIKO!” þá kveiknaði brjálæðislegt augnaráð hjá minni og ég æddi í lyftuna eins og ólm kvíga.

Sömuleiðis með Árna Johnsen. Hann stóð í stórræðum á þessum árum, byggði kirkjur á Grænlandi og gerði upp þjóðleikhús og önnur hús á kostnað almennings. Það var samt ekki þjófnaðurinn hans sem fór mest í taugarnar á mér, heldur meðfæddur hrokinn og skilningsleysið hans á eigin afbrotum. Ég bókstaflega sá rautt þegar einhver nefndi þennan annars meinlausa mann á nafn. Ég lyfti mörg tonn út á þessa reiði og stend sjálfsagt í þakkarskuld við manninn fyrir vikið.

Jónsi lærði að það dugði að segja “KEIKO” eða “ÁRNI JOHNSEN” hátt og ákveðið, þá ærðist ég á nóinu.

En nú eru breyttir tímar. Keiko er dauður og grafinn, og Árni Johnsen læðist með veggjum. Hvað á ég til bragðs að taka?

Ég er að leita að nýjum reiðihvata.

George W. Bush dugði í þó nokkrar bætingar þegar hann var nýtekinn við embætti, en nú er hann búinn að gera svo margar gloríur að maður er hættur að kippa sér upp við það. Hvað þá æsa sig yfir þeim.

Hvað með Hannes Hólmstein? spurði vinkona mín mér í framhaldi af hæstaréttardómnum. Fer hann ekki í taugarnar á þér?

Þetta var skarplega athugað hjá henni, því svona svindl er einmitt eitthvað af því tagi sem virkilega gerir mig reiða. En Hannes Hólmsteinn er einhvernveginn of brjóstumkennanlegur til að það sé hægt að reiðast honum almennilega. Árni Johnsen hafði þó style! Hannes er bara pathetic.

Svo nú er ég sem sagt á höttunum eftir einhvern sem getur reitt mig til reiði. Ég stefni á bætingar í nánustu framtíð, svo mig liggur á.
Ætti ég kannski að auglýsa? Eftir einhvern sem tekur að sér að æsa upp miðaldra konur?
Það er þá best að orða auglýsinguna þannig að hún geti ekki misskilist

%d bloggers like this: