Bekkurinn

Bekkurinn

Sko … ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða það …. bekkurinn er ekki mitt uppáhald.
Hefur aldrei verið.
Og er það ekki alveg týpisk, ef einhver fréttir að ég er að dunda mér í kraftlyftingum er fyrsta spurningin alltaf: og hvað tekurðu í bekk?? Mig langar ekki að tala um hvað ég tek í bekk, það er ekki spurningin sem ég helst vil fá. 72,5 kg best hljómar einhvernveginn ekki nógu sannfærandi. Hljómar frekar aumingjalega reyndar. Ég umla því út úr mér með flóttalegu augnaráði.
Af hverju geta menn ekki frekar spurt: og hvað tekurðu í réttstöðu?? Þar er ég alveg sátt við minn árangur og get horft fast í augun á fólki og sagt 150 kg. Það finnst mér ekki til að hauspokast yfir.

Það er búið að vera streð á bekknum í allan vetur, og hægriöxlin endalaust að angra mig. Bólga í festunum sjálfsagt. Þegar verst lætur þarf ég aðstoð við að klæða mig og keyri með aðra hönd á stýri. Og svo þykist maður vera að gera þetta sér til heilsubótar!
Ég tími ekki að hvíla og rembist áfram með misjöfnum árangri. Því meira sem ég æfi, því lélegri verð ég. Ef ég hitti á auman blett missi ég allan mátt í hendinni og get rétt lyft litlifingur.

En svo fór ég á bekkpressumótið um helgina og hvað gerist? Ég styrkist um 5-10 kíló. Við það eitt að horfa á almennilega framkvæmdar lyftur bæti ég mig um heilan helling á næstu æfingu. Það hlýtur að vera Andinn sjálfur sem hefur komið yfir mig á staðnum. Það er eitt að láta segja sér til, það er annað að sjá með eigin augum hvernig á að bera sig að. Það er gallinn við að æfa á stað þar sem maður sjálfur er sterkasta manneskjan í salnum. Það vantar fyrirmyndir.

Ég er farin að taka rotator í lok æfingar til að auka flæði og liðka og ég finn merkjanlegan mun 7-9-13. Vonandi get ég farið að bæta mig úr þessu. MIG LANGAR SVO!!

%d bloggers like this: