Lyse øyeblikk


I tilefni bankahruns

37. Davíðssálmur.

Ver eigi bráður þeim sem illt vinna, öfunda eigi þá sem ranglæti fremja
því að þeir fölna skjótt sem grasið,visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og ger gott, þá muntu óhultur búa í landinu.
Njót gleði í Drottni, þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir.
Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.
Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.
Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann, ver eigi of bráður vegna þess manns sem vel gengur
eða þess sem illu veldur.
Lát af reiði, slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Því að illvirkjum verður tortímt en þeir sem vona á Drottin fá landið til eignar.
Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn, ef þú leitar hans er hann ekki að finna.
En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.

Hinn óguðlegi bruggar réttlátum vélráð og gnístir tönnum gegn honum.
Drottinn hlær að honum því að hann sér að dagur hans kemur.
Óguðlegir bregða sverði og spenna boga sína til þess að fella hinn umkomulausa og snauða,
til þess að deyða hina ráðvöndu.
En sverð þeirra munu rista þeirra eigin hjörtu og bogar þeirra munu brotnir verða.

Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra óguðlegra því að armur óguðlegra mun brotinn en réttláta styður Drottinn.
Drottinn hefur gætur á dögum flekklausra og arfleifð þeirra varir að eilífu.

Á vondum tímum verða þeir ekki til skammar, í hallæri hljóta þeir saðning.
En hinir óguðlegu munu farast. Óvinir Drottins eru sem blóm á engi,
þeir hverfa, eins og reykur hverfa þeir.

Guðlaus maður tekur lán og borgar ekki en réttlátur maður er mildur og örlátur.
Þeir sem Drottinn blessar fá landið til eignar en hinum bannfærðu verður tortímt.
Drottinn stýrir skrefum mannsins þegar hann hefur þóknun á vegferð hans.
Þó að hann hrasi fellur hann ekki flatur því að Drottinn heldur í hönd hans.
Ungur var ég og gamall er ég orðinn en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn
eða niðja hans biðja sér matar.
Ætíð er hann mildur og fús til að lána og niðjar hans verða öðrum til blessunar.

Forðastu illt en ger gott, þá muntu eiga bústað um aldur
því að Drottinn hefur mætur á réttlæti og yfirgefur eigi sína trúuðu.
Þeir verða að eilífu varðveittir en niðjar óguðlegra upprættir.
Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.
Munnur hins réttláta mælir speki og tunga hans boðar réttlæti.
Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.

Guðlaus maður situr um réttlátan og sækist eftir lífi hans.
En Drottinn ofurselur hann ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.
Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, hann mun hefja þig upp, að þú erfir landið,
og þú munt sjá guðleysingjum tortímt.

Ég hef séð óguðlegan ofstopamann breiða úr sér sem laufmikið tré í gróðurreit sínum.
Ég gekk þar hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans en hann var hvergi að finna.
Gef gætur að hinum ráðvanda og horfðu til hins grandvara því að friðsamir menn eiga framtíðina fyrir sér en allir syndarar farast, óguðlegir eiga sér enga framtíð.

Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.
Drottinn liðsinnir þeim og bjargar,frelsar þá frá óguðlegum og bjargar þeim
því að þeir leituðu athvarfs hjá honum.


svona í tilefni dagsins ..

Mika spámaður var sko ekki að skafa utan af því …

Gegn ágirnd ofríkismanna

Vei þeim sem efna til ranginda, hyggja á ill verk í hvílu sinni og vinna þau þegar dagur rennur,því að þess eru þeir megnugir. Þeir ágirnast akra og ræna þeim, hús og stela þeim.
Þeir svipta menn heimilum sínum og fólkið arfleifð sinni.
Vegna þessa segir Drottinn: Meiri ógæfu baka ég þessari kynslóð en þér fáið risið undir. Uppréttir munuð þér eigi ganga, slík verður sú hörmungatíð. Á þeim degi verður níð kveðið um yður og harmasöngur hafinn: „Vér erum glataðir. Eignum þjóðar minnar er svipt burt, landið tekið af henni og því deilt milli kúgara.“
…..
En þér rísið gegn þjóð minni sem fjandmenn, þér rífið kyrtilinn af hinum friðsama og ugglausa vegfarendur takið þér herfangi. Þér rekið konur þjóðar minnar af heimilunum, sem voru yndi þeirra, og sviptið börn þeirra að eilífu heiðrinum sem þau hafa þegið af mér. Burt héðan. Farið burt. Hér eigið þér engan samastað. Spilling yðar saurgar og ber í sér ómælda hörmung.
En kæmi nú hræsnari og boðaði hégóma og lygi sem svo: „Ég boða þér vín og áfengan drykk,“
þá væri það spámaður fyrir þvílíka þjóð.

Gegn leiðtogum þjóðarinnar

Ég sagði: Heyrið, höfðingjar Jakobs og leiðtogar Ísraels ættar. Vissulega áttuð þér að vita hvað rétt er. En þér hatið það sem gott er og elskið það sem illt er, fláið af mönnum húðina,
tætið hold af beinum þeirra. Þeir eta hold þjóðar minnar, flá af skinnið og brjóta beinin, hluta holdið niður eins og kjöt í pott eða steik á pönnu. Þeir munu hrópa til Drottins en hann mun ekki svara, heldur byrgja auglit sitt fyrir þeim því að verk þeirra voru ill.